Höfum ekki efni á að skima fyrir veirunni

Ian Holloway stýrði liði Blackpool á sínum tíma í úrvalsdeildinni.
Ian Holloway stýrði liði Blackpool á sínum tíma í úrvalsdeildinni. AFP

Allir leikmenn og starfsmenn í kringum ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu þurfa að fara í skimun vegna kórónuveirunnar tvisvar í viku en til stendur að hefja keppni á ný í næsta mánuði. Nú hefur knattspyrnustjórinn geðþekki Ian Holloway stigið fram og bent á að félög í neðri deildum hafi hreinlega ekki burði til að fylgja svipuðum reglum.

Holloway, sem hefur þjálfað lið í öllum fjórum atvinnumannadeildum Englands, hefur áhyggjur af því að forráðamenn knattspyrnusambandsins beri ekki næga virðingu fyrir neðri deildunum. Hann stýrir í dag liði Grimsby í D-deildinni og segir félagið nú lifa við mikla óvissu.

„Stendur fótbolta á sama um það stig sem ég er á? Við fáum mylsnuna af borðinu vegna þess að knattspyrnunni er ekki stýrt nægilega vel. Félögin á toppnum þurfa ekki einu sinni áhorfendur á leikina sína, við fáum helminginn af öllum okkar tekjum í gegnum miðasölu,“ sagði hann við Sky Sports.

„Jafnvel þótt við megum byrja að spila aftur þurfum við að skima leikmenn yfir þessar níu umferðir sem eftir eru. Við höfum ekki efni á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert