Pogba fær sennilega ekki félagaskipti

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, fær sennilega ekki félagaskipti í sumar þrátt fyrir að vilja róa á önnur mið en hann hefur verið mikið orðaður við endurkomu til Juventus á Ítalíu eða skipti til stórliðs Real Madríd á Spáni.

Frakkinn gekk til liðs við United fyr­ir 90 millj­ón­ir punda sumarið 2016 en hefur þó gengið misvel með Manchester-liðinu síðan þá. Hann hefur verið mikið meiddur á þessari leiktíð og virtist nær öruggt fyrir nokkrum mánuðum að hann yrði seldur frá félaginu enda forráðamenn félagsins sagðir vera búnir að fá nóg af honum.

Vegna kórónuveirunnar og þeirra fjárhagslegu áhrifa sem ástandið hefur á knattspyrnufélög um allan heim er þó gríðarlega ólíklegt að einhver sé tilbúinn að greiða uppsett verð. Daniel Taylor, blaðamaður The Athletic, telur næsta víst að Pogba verði áfram, að minnsta kosti í eitt ár til viðbótar.

mbl.is