Kveið fyrir að mæta á Old Trafford (myndskeið)

„Þeir voru á góðu flugi og nú er Rashford kominn til baka. Hann er ungur og skiptir liðið miklu máli,“ sagði Emile Heskey, fyrrverandi leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, um Manchester United í samtali við Tómas Þór Þórðarson á Símanum sport. 

United mætir Tottenham á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta klukkan 19:15 í kvöld. Heskey segir United vera öðruvísi lið núna en þegar hann var sjálfur í fullu fjöri og segir hann lið ekki lengur óttast að mæta Manchester-liðinu á útivelli. 

„Þegar ég var að spila með öðrum liðum en Liverpool vorum við búnir að tapa andlega áður en við mættum á Old Trafford. Það hefur breyst og lið mæta glöð til leiks gegn United. Sú var ekki raunin þegar ég var að spila, heldur kveið okkur fyrir. United verður að komast á þann stað aftur, Liverpool og City eru þar núna,“ sagði framherjinn fyrrverandi.

Hann ræddi sömuleiðis um franska miðjumanninn Paul Pogba sem er búinn að jafna sig á meiðslum og ætti að styrkja United-liðið töluvert. „Það vilja allir sjá Pogba eins og hann spilar með franska landsliðinu; að stjórna leikjum. Það gæti hjálpað honum að spila með Bruno Fernandes. Fólk óttast Paul Pogba þegar hann er upp á sitt besta,“ bætti Heskey við. 

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Verður leikurinn í beinni útsendingu á Símanum sport. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert