Campbell og Hermann farnir frá Southend

Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson á golfmóti þess síðarnefnda, Herminator …
Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson á golfmóti þess síðarnefnda, Herminator golfmótinu í Vestmannaeyjum árið 2015.

Enska knattspyrnufélagið Southend United tilkynnti nú í hádeginu að knattspyrnustjórinn Sol Campbell væri hættur störfum ásamt öllu sínu starfsliði en þar á meðal er aðstoðarstjórinn Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands og atvinnumaður á Englandi til fjölda ára.

Þá er Andy Cole, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, meðal þeirra sem yfirgefa félagið með Campbell en hann var einnig í þjálfarateyminu.

Campbell og félagar tóku við Southend í október 2019 en félagið var þá í afar erfiðri stöðu, fjárhagslega og með leikmannahóp, og átti aldrei möguleika á að halda sæti sínu í C-deildinni. Þegar keppni var hætt eftir 35 umferðir var liðið aðeins með 19 stig og í næstneðsta sæti, sextán stigum frá því að komast úr fallsæti.

Lið Southend var að mestu leyti skipað ungum leikmönnum og á heimasíðu Southend eru Campbell og starfsliði hans þakkað fyrir vel unnin störf við mjög erfiðar aðstæður.

„Félagið á spennandi framtíð þar sem áætlanir hafa verið gerðar um nýjan leikvang, en eftir að yfirstandandi kórónuveirufaraldur hefur haft gríðarleg áhrif á allan fyrirtækjarekstur þá vil ég ekki vera félaginu fjárhagsleg byrði. Ég þakka stuðningsmönnum Southend fyrir að hafa staðið þétt við bakið á mér allan tímann og óska félaginu og starfsliði þess alls hins besta," sagði Campbell á heimasíðu Southend.

mbl.is