Ósáttur með leikmenn sína

Frank Lampard var mjög ósáttur eftir tap Chelsea gegn West …
Frank Lampard var mjög ósáttur eftir tap Chelsea gegn West Ham í gær. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, var afar ósáttur með leikmenn sína eftir 3:2-tap liðsins gegn West Ham á útivelli í London í gær. Willian kom Chelsea yfir í fyrri hálfleik en Tomas Soucek og Michail Antonio komu West Ham yfir á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Willian jafnaði aftur metin fyrir Chelsea á 72. mínútu áður en Andriy Yarmolenko skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu.

Lampard var ómyrkur í máli eftir leik í samtali við fjölmiðla og lét leikmenn sína heyra það. „Heilt yfir þá er ég sáttur með tímabilið en það hafa komið allt of mörg svona augnablik eins og í leiknum í kvöld,“ sagði Lampard í samtali við Sky Sports. „Með sigri hefðum við getað skotist upp í þriðja sætið en það gekk ekki eftir.

Í ensku úrvalsdeildinni er ekki í boði að sofna á verðinum. Þegar að það gerist þá gefurðu andstæðingnum auka kraft og sjálfstraust. Mínir leikmenn verða einfaldlega að vera mun sterkari andlega ef við ætlum að blanda okkur í einhverja alvöru topp baráttu. Ég hef fylgst vel með mínu liði í allan vetur og við höfum átt góða rispur á köflum.

Við viljum hins vegar berjast í og við toppinn á næstu leiktíð og þá þýðir ekki að mæta til leiks og missa einbeitinguna trekk í trekk á stórum köflum í leikjunum. Við erum einfaldlega ekki að gera nægilega vel, of oft á tímabilinu, og það er ástæðan fyrir því að við erum að berjast um síðasta Meistaradeildarsætið,“ bætti Lampard við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert