Sáuð ekki nokkurn skapaðan hlut (myndskeið)

Andy Robertson var allt annað en sáttur með dómgæsluna á …
Andy Robertson var allt annað en sáttur með dómgæsluna á Anfield um helgina. AFP

Andy Robertson, vinsti bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, var allt annað en sáttur með David Coote sem dæmdi leik Liverpool og Burnley í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Robertson vildi meðal annars fá vítaspyrnu undir lok leiksins þegar Jóhann Berg Guðmundsson braut á honum innan teigs.

Robertson gekk til dómaratríósins í leikslok og lét þá heyra það duglega. „Þið sáuð ekki nokkurn skapaðan hlut allan leikinn,“ sagði Robertson. „Hver er eiginlega tilgangurinn með að hafa ykkur á vellinum,“ bætti Skotinn  við en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, stóð við hlið Robertson þegar atvikið átti sér stað og lét sér fátt um finnast.

Hvorki Robertson né Klopp verður refsað fyrir atvikið en dómgæslan í ensku úrvalsdeildinni hefur verið mikið í umræðunni á Englandi með tilkomu VAR. Margar stórar ákvarðanir hafa verið teknar á yfirstandandi tímabili og virðast margir leikmenn og þjálfarar vera búnir að fá sig fullsadda.

mbl.is