Væri glæpsamlegt að missa einbeitinguna

James Milner.
James Milner. AFP

Knattspyrnumaðurinn James Milner hefur varað liðsfélaga sína í Liverpool við eftir að liðið varð enskur meistari á dögunum en þetta var fyrsti titill félagsins í 30 ár.

Eftir 30 ára bið hafa leikmenn Liverpool skiljanlega fagnað vel og innilega en gengi liðsins versnaði til muna eftir að toppsætið var í höfn, liðið tapaði tveimur af síðustu sjö leikjum sínum eftir að hafa aðeins tapað einum fram að því.

Leikmannahópurinn er nú farinn í sumarfrí áður en næsta tímabil hefst í september en Milner, sem varð enskur meistari með Manchester City tvisvar, segir að samherjar hans verði að vera klárir í slaginn þegar þeir snúa aftur.

„Auðvitað þurfum við að njóta þess því við vitum hversu erfitt það er að vinna titla,“ sagði Milner í viðtali sem birtist á heimasíðu Liverpool. „En ferill knattspyrnumannsins er stuttur og þú vilt ekki sóa einu eða tveimur tímabilum út af einbeitingarleysi. Við erum gott lið en megum ekki slaka á, það væri glæpsamlegt og við myndum sjá eftir því seinna meir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert