Leeds ólíklegt til að halda í varnarmanninn

Leikmenn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í sumar.
Leikmenn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í sumar. AFP

Brighton hefur hafnað 22 milljóna punda tilboði Leeds United í varnarmanninn Ben White en hann var að láni hjá Leeds á síðustu leiktíð og hjálpaði liðinu að komast upp úr ensku B-deildinni í knattspyrnu í sumar.

White á tvö ár eftir af samningi sínum hjá Brighton og ætla forráðamenn félagsins að halda leikmanninum innan sinna raða. Leeds bauð fyrst 18 milljónir og svo 22 en báðum tilboðum hefur verið hafnað.

White spilaði alla 46 deildarleiki Leeds á síðustu leiktíð og þykir bráðefnilegur en hann er 22 ára gamall. Graham Potter, stjóri Brighton, er sannfærður um að White sé orðinn nógu góður til að spila í úrvalsdeild og því sé algjör óþarfi að selja hann til andstæðings í deildinni. Brighton endaði í 15. sæti deildarinnar á nýliðinni leiktíð.

mbl.is