Starfsmaður Hótels Sögu borinn þungum sökum

Enskir fjölmiðlar halda áfram að fjalla um málefni tvímenninganna í …
Enskir fjölmiðlar halda áfram að fjalla um málefni tvímenninganna í dag. AFP

Enskir fjölmiðlar héldu áfram að fjalla um málefni Masons Greenwoods og Phils Fodens, leikmanna enska landsliðsins í knattspyrnu, í morgun en þeir gerðust sekir um brot á sóttvarnareglum á Íslandi á dögunum.

Þeir voru báðir í landsliðshópi Gareths Southgates sem vann 1:0-sigur gegn Íslandi í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli laugardaginn 5. september síðastliðinn, en báðir voru þeir að leika sinn fyrsta landsleik.

Á sunnudeginum fengu þeir tvær íslenskar stúlkur upp á herbergi til sín, sem er brot á sóttvarnareglum og voru þeir báðir reknir úr enska landsliðinu fyrir brot sitt.

Daily Mail greinir frá því að starfsmaður Hótels Sögu hafi aðstoðað knattspyrnumennina við að smygla stúlkunum tveimur inn á hótelið og fyrir það hafi hann fengið umtalsverða fjárhæð.

„Leikmennirnir borguðu starfsmanni hótelsins fyrir að aðstoða sig við að smygla stelpunum inn á hótelið og brjóta þar með sóttvarnareglur í leiðinni,“ segir í umfjöllun Daily Mail.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli á Englandi enda enskir knattspyrnumenn og afrek þeirra utan vallar í sérstöku uppáhaldi hjá bresku pressunni.

Umfjöllun Daily Mail um málið má lesa með því að smella hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina