Skoraði eitt af mörkum tímabilsins (myndskeið)

Reece James skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Chelsea þegar liðið vann 3:1-útisigur gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Falmer-vellinum í Brighton í kvöld.

Reece kom Chelsea þá yfir, 2:1, en hann þrumaði boltanum af þrjátíu metra færi upp í samskeytin nær, óverjandi fyrir Mat Ryan í marki Brighton.

Þá fiskaði Timo Werner, nýjasti liðsmaður Chelsea, vítaspyrnu í leiknum sem Jorginho skoraði úr og Kurt Zouma innsiglaði sigur Chelsea með marki eftir hornspyrnu á 66. mínútu.

Leandro Trossard skoraði mark Brighton á 54. mínútu með vinstri fótarskoti, rétt utan teigs.

mbl.is