Stjóri Burnley ekki bjartsýnn með meiðsli Jóhanns

Jóhann Berg Guðmundsson borinn af velli í leiknum á Turf …
Jóhann Berg Guðmundsson borinn af velli í leiknum á Turf Moor í dag. AFP

Hætta virðist á að Jóhann Berg Guðmundsson hafi orðið fyrir alvarlegum meiðslum í kvöld þegar hann varð fyrir harðri tæklingu í leik með Burnley gegn Sheffield United í enska deildabikarnum.

Eftir aðeins 15 mínútna leik braut Jack Robinson leikmaður Sheffield United harkalega á Jóhanni sem var borinn af velli og þurfti súrefni á meðan hann fékk aðhlynningu.

„Leikurinn hefur breyst. Ég sagði við Chris (Wilder, stjóra Sheffield United) að þegar við vorum að spila hafi þetta verið eðlileg tækling. Þannig er það ekki lengur. Þetta á að vera rautt spjald, svo einfalt er það," sagði Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, á heimasíðu félagsins eftir leikinn.

„Ég var ekki viss þegar þetta  gerðist en svo sá ég atvikið aftur í hálfleik og þetta var algjörlega ástæðulaust. Leikmenn okkar voru afar óhressir með þetta í hálfleik en mér tókst að koma því út úr hausnum á þeim. En það sem mér þykir verst er að dómararnir eru til staðar, aðstoðardómarinn var fimm metra frá atvikinu og ekkert var dæmt.

Við vitum allir að í úrvalsdeildinni hrynja menn niður þegar einhver snertir á þeim eyrað. Það verður að vera jafnvægi í dómgæslunni og í kvöld höfðu þeir rangt fyrir sér, og við höfum misst leikmann.

Þetta verða meira en einhverjir dagar hjá Jóhanni. Við þurfum að bíða eftir niðurstöðunum en hann sneri upp á hnéð þegar hann var tæklaður og það eru ekki góðar fréttir," sagði Dyche.

Jóhann missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en var klár í slaginn fyrir nýtt tímabil þar sem Burnley leikur sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni á sunnudaginn,  gegn Leicester.

Þá er stutt í umspilsleikinn mikilvæga hjá íslenska landsliðinu sem mætir Rúmeníu á Laugardalsvellinum 8. október. Horfurnar með Jóhann fyrir þann leik virðast ekki góðar.

mbl.is