Liverpool staðfestir komu Thiago

Thiago Alcantara í búningi Liverpool í dag.
Thiago Alcantara í búningi Liverpool í dag. Ljósmynd/Liverpool

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur staðfest kaupin á spænska miðjumanninum Thiago Alcantara frá Bayern München og að hann hafi skrifað undir fjögurra ára samning við félagið.

Kaupverðið er talið vera 20 milljónir punda en það geti hækkað í 27 milljónir með öllum skilyrðum uppfylltum.

„Þetta er stórkostleg tilfinning, ég er búinn að bíða lengi eftir þessu og er gríðarlega ánægður með að vera kominn hingað. Eftir því sem árin líða vill maður vinna eins mikið og mögulegt er, og þegar maður vinnur eitthvað, vill maður meira. Þannig er ég, og þannig held ég að þetta félag sé líka. Ég vil ná öllum markmiðum og vinna eins marga titla og mögulegt er," sagði Thiago á vef Liverpool eftir undirskriftina.

„Hér er líka sú fjölskyldustemning sem ég þarf á að halda því okkur finnst nauðsynlegt að vera í mjög nánum tengslum við okkar félag, og ég er viss um að þannig verður þetta hérna," sagði Thiago.

mbl.is