Gylfi lagði upp mark fyrir Everton - Manchesterliðin áfram

Dominic Calvert-Lewin innsiglar þrennuna og Gylfi sést vinstra megin á …
Dominic Calvert-Lewin innsiglar þrennuna og Gylfi sést vinstra megin á myndinni. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp síðasta mark Everton þegar liðið vann West Ham United í kvöld og komst í átta liða úrslitin í ensku deildabikarkeppninni í knattspyrnu.

Everton vann öruggan 4:1 sigur og skoraði Dominic Calvert-Lewin þrennu. Allur gangur er á því hversu öflugum liðum er stillt upp í þessari keppni en Everton tefldi fram sterku liði í kvöld en auk þeirra Gylfa og Calvert-Lewin voru margir fastamenn í byrjunarliðinu. 

Manchesterliðin eru bæði komin áfram eftir útisigra gegn nokkuð erfiðum andstæðingum á þessu stigi keppninnar. City vann Burnley 3:0 á útivelli en Jóhann Berg Guðmundsson er ekki orðinn leikfær hjá Burnley vegna meiðsla. Raheem Sterling skoraði tvö marka City og Ferran Torres eitt.

United vann Brighton 3:0 þar sem Scott McTominay, Juan Mata og Paul Pogba skoruðu mörkin.

Þá komst Newcastle áfram en þurfti vítaspyrnukeppni til að slá út D-deildarliðið Newport eftir að liðin skildu jöfn, 1:1. Jonjo Shelvey bjargaði þar Newcastle með jöfnunarmarki rétt fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert