Southampton fyrst til að vinna Everton

Leikmenn Southampton fagna í dag.
Leikmenn Southampton fagna í dag. AFP

Southampton vann 2:0-sigur á toppliði Everton á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Var þetta fyrsta tap Everton á tímabilinu en Southampton lyfti sér upp í fimmta sætið með sigrinum.

Þó gestirnir hafi byrjað leikinn ágætlega voru það heimamenn í Southampton sem tóku forystuna, James Ward-Prowse skoraði með föstu skoti í fjærhornið eftir sendingu frá Danny Ings. Che Adams bætti svo við marki fyrir Southampton átta  mínútum síðar eftir upplegg frá Ward-Prowse, staðan orðin 2:0.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og bar fyrirliðabandið en hann var tekinn af velli á 58. mínútu. Staðan versnaði svo fyrir gestina þegar Lucas Digne fékk beint rautt spjald fyrir háskalega tæklingu á 72. mínútu.

Everton er enn á toppnum, með 13 stig eftir sex leiki en liðið er á undan Liverpool á markatölu. Aston Villa er í 3. sæti með 12 stig og á leik til góða. Southampton er í 5. sætinu með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert