Hefur ekki miklar áhyggjur af Liverpool

Englandsmeistarar Liverpool hafa verið afar óheppnir með meiðsli í upphafi tímabilsins en liðið tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í Liverpool á morgun.

Liverpool er með 13 stig í öðru sæti deildarinnar á meðan West Ham er í tólfta sætinu með 8 stig.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans, ræddi leikinn, sóknarmann liðsins Diogo Jota og stöðu Liverpool í deildinni við einn af sérfræðingum sínum Bjarna Þór Viðarsson.

„Liverpool er á toppnum en eru samt búnir að lenda í stórum meiðslum,“ sagði Bjarni Þór.

„Þetta lítur vel út fyrir Liverpool og ég held að Jürgen Klopp verði duglegur að nota Diogo Joto á heimavelli gegn liðum sem Liverpool á að vinna.

Þrátt fyrir öll þessi meiðsli þá hef ég ekki miklar áhyggjur af Liverpool og ég tel að þeir séu með mannsskap til þess að bregðast við þessu,“ bætti Bjarni við.

Leikur Liverpool og West Ham verður sýndur beint á Símanum Sport.

mbl.is