Leikmaður United virðist hafa fengið veiruna aftur

Alex Telles.
Alex Telles. AFP

Al­ex­ Tell­es, bakvörður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, virðist hafa greinst með kórónuveiruna í annað sinn samkvæmt brasilíska knattspyrnusambandinu.

Telles greindist með veiruna í október og hefur ekkert komið við sögu í leikjum liðsins undanfarnar vikur vegna þess en hann var keyptur til Manchester í sumar frá Porto í Portúgal og hefur aðeins náð að spila einn leik fyrir United.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að Telles hafi greinst jákvæður í skimun sem allir leikmenn landsliðsins fóru í og getur hann því ekki spilað gegn Úrúgvæ á þriðjudaginn. Það þarf þó ekki endilega að vera að hann sé með veiruna í annað sinn samkvæmt tilkynningunni.

Sky Sports segir frá því að læknateymi Manchester United muni skoða bakvörðinn þegar hann snýr aftur til borgarinnar en United á að spila við West Brom í úrvalsdeildinni um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert