Arteta hefur miklar áhyggjur

Mikel Arteta kemur skilaboðum áleiðis í gær.
Mikel Arteta kemur skilaboðum áleiðis í gær. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal, hefur miklar áhyggjur af liði sínu en Arsenal tapaði sínum þriðja heimaleik í röð í deildinni í gær gegn Wolves 1:2.

Arsenal hefur ekki byrjað eins illa á tímabili síðan 1981 og gengur lítið hjá liðinu sem er í 14. sæti með 13 stig eftir 10 leiki. Fyrirliðinn Pierre Emerick-Aubameyang skorar lítið og gengur illa hjá Arsenal að nýta færin. 

„Auðvitað hef ég miklar áhyggjur. Ég ber ábyrgð á þessu. Við verðum að skora meira, en við erum að skapa færi. Þeir skoruðu úr báðum færunum sínum í fyrri hálfleik en við skoruðum ekki. Þetta voru mjög slæm úrslit,“ sagði Arteta við Sky eftir leik.

Hann var svo spurður um framtíð sína hjá félaginu. „Þegar ég ákvað að verða knattspyrnustjóri vissi ég að einn daginn yrði ég rekinn eða myndi hætta, en ég einbeiti mér að því að gera leikmennina mína betri,“ sagði Spánverjinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert