Pogba skaut Manchester United á toppinn

Paul Pogba fagnar marki sínu á Turf Moor í kvöld.
Paul Pogba fagnar marki sínu á Turf Moor í kvöld. AFP

Paul Pogba skaut Manchester United á topp ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með sigurmarki sínu í 1:0-sigri á Burnley á Turf Moor í kvöld. United átti þennan leik til góða og er nú eitt í toppsætinu með 36, þremur stigum á undan erkifjendum sínum í Liverpool en toppliðin mætast á Anfield um helgina.

United var sterkari aðili leiksins lengst af en staðan var þó markalaus eftir fjörugan fyrri hálfleik. Miklar tafir urðu á 27. mínútu er skoða þurfti tvö atvik með hjálp myndbandsdómgæslunnar. Luke Shaw hafði þá tæklað Jóhann Berg Guðmundsson hressilega og skömmu síðar var brotið á Edison Cavani sem var sloppinn einn í gegn. Fyrst var Robbie Brady gefið gult spjald fyrir brotið á Úrúgvæanum og það til skoðunar hvort hann hefði átt að fá rautt en niðurstaðan varð hins vegar sú að dæma aukaspyrnu á Shaw og spjalda hann í staðinn. Þá stangaði Harry Maguire boltann laglega í netið stuttu fyrir hálfleik en var dæmdur brotlegur og mark rauðu djöflanna því ekki gilt.

Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley og spilaði hann allan leikinn en þetta var hans fyrsti í deildinni síðan í nóvember. Gestirnir brutu svo ísinn á 71. mínútu, Paul Pogba skoraði laglegt mark úr viðstöðulausu skoti utan teigs eftir fyrirgjöf Marcus Rashford. Eftir þetta færðu Burnley-menn sig upp á skaftið í fyrsta sinn í leiknum en náðu þó ekki að kreista fram jöfnunarmark, áttu í raun ekki skot að marki allan leikinn.

United er sem fyrr segir eitt á toppnum en mætir einmitt Englandsmeisturum Liverpool, sem sitja í öðru sætinu, í risaleik helgarinnar á Anfield á sunnudaginn. Burnley er í 16. sæti með 16 stig.

Nemanja Matic sækir að Jóhanni Berg Guðmundssyni á Turf Moor …
Nemanja Matic sækir að Jóhanni Berg Guðmundssyni á Turf Moor í kvöld. AFP
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Burnley 0:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma. Pressa heimamanna er orðinn ansi þung, geta þeir kreist fram jöfnunarmark?
mbl.is