Fyrsti sigurinn í tvo mánuði

Leikmenn West Brom fagna sigrinum mikilvæga á Molineux-vellinum í dag.
Leikmenn West Brom fagna sigrinum mikilvæga á Molineux-vellinum í dag. AFP

West Brom vann gríðarlega mikilvægan 3:2-útisigur gegn Wolves í 18. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Molineux-leikvanginum í dag. Þetta var aðeins annar sigur West Brom á tímabilinu og sá fyrsti í tæpa tvo mánuði.

Gestirnir, sem eru í næstneðsta sæti deildarinnar, tóku forystuna strax á áttundu mínútu er Mattheus Peireira skoraði úr vítaspyrnu en Willy Boly hafði þá fellt Callum Robinson inni í teig. Úlfarnir svöruðu hins vegar fyrir sig áður en hálfleikurinn var úti. Fabio Silva jafnaði metin á 38. mínútu eftir smá darraðardans inni í vítateig í kjölfar aukaspyrnu frá Pedro Neto og táningurinn skoraði af öryggi.

Aðeins fimm mínútum síðar var svo staðan 2:1 er Willy Boly skoraði á fjærstönginni, aftur eftir fast leikatriði eða hornspyrnu í þetta sinn. Gestirnir voru þó ekki hættir og þeir sjálfir sneru taflinu við eftir hlé. Semi Ajayi stangaði knöttinn í netið eftir langt innkast til að jafna metin á 52. mínútu og West Brom fékk svo aðra vítaspyrnu þremur mínútum síðar er Conor Coady felldi Robinson inn í teig. Peireira steig á punktinn og skoraði aftur örugglega, nú í öfugt horn og gestirnir unnu gríðarlega mikilvægan sigur í botnbaráttunni.

West Brom er í 19. sæti með 11 stig, nú þremur stigum frá öruggu sæti en Wolves er í 14. sæti með 22 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert