Ætlar að yfirgefa Liverpool

Georginio Wijnaldum og Paul Pogba eigast við á Anfield í …
Georginio Wijnaldum og Paul Pogba eigast við á Anfield í leik Liverpool og Manchester United í gær. AFP

Knattspyrnumaðurinn Georginio Wijnaldum hefur ákveðið að yfigefa Liverpool þegar samningur hans við Englandsmeistarana rennur út næsta sumar.

Það er Mirror sem greinir frá þessu en Wijnaldum hefur átt í samningaviðræðum við forráðamenn félagsins undanfarna mánuði.

Miðjumaðurinn, sem er orðinn þrítugur, vill fá umtalsverða launahækkun ef hann á að skrifa undir nýjan samning á Anfield.

Forráðamenn Liverpool eru ekki tilbúnir að gera hann að einum launahæsta leikmanni félagsins og því hefur hann ákveðið að róa á önnur mið.

Hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona undanfarna mánuði en Ronald Koeman, fyrrverandi þjálfari hans hjá hollenska landsliðinu, stýrir Barcelona í dag.

Wijnaldum gekk til liðs við Liverpool frá Newcastle, sumarið 2016, en hann á að baki 212 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 21 mark og lagt upp önnur 16.

mbl.is