Leicester á toppinn

James Maddison skorar annað mark Leicester í kvöld.
James Maddison skorar annað mark Leicester í kvöld. AFP

Leicester City vann góðan 2:0 sigur gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn þýðir að Leicester er, að minnsta kosti tímabundið, komið í toppsæti deildarinnar.

Leicester komst yfir snemma leiks. Á 6. mínútu tók Marc Albrighton stutta hornspyrnu og gaf á James Maddison sem kom boltanum aftur á Albrighton. Hann lagði boltann út í teiginn þar sem Harvey Barnes kom aðvífandi en hitti ekki boltann. Þaðan barst boltinn til Wilfred Ndidi sem hamraði boltann með vinstri fæti, rétt fyrir utan teig, í stöngina og inn. Glæsilegt mark og staðan orðin 1:0.

Liðsmenn Chelsea virtust slegnir út af laginu eftir að hafa fengið á sig mark svo snemma leiks. 10 mínútum eftir að Leicester komst yfir fékk Maddison boltann fyrir utan teig, lagði hann fyrir sig og þrumaði að marki með vinstri fæti en boltinn small í þverslánni.

Á 21. mínútu fékk Thiago Silva fyrsta færi Chelsea í leiknum, þegar hann náði fínum skalla eftir hornspyrnu Mason Mount en Kasper Schmeichel varði boltann út.

Á 32. mínútu fékk Callum Hudson-Odoi svo besta færi Chelsea í hálfleiknum þegar hann slapp í gegn en skot hans slappt og í hliðarnetið nær.

Skömmu síðar slapp Jamie Vardy í gegn hinum megin en honum brást sömuleiðis bogalistin þegar hann reyndi að vippa boltanum yfir Edouard Mendy í marki Chelsea. Mendy sá við honum og varði lausa vippuna til hliðar.

Á 38. mínútu benti Craig Pawson dómari á vítapunktinn eftir að Jonny Evans hafði brotið á Christian Pulisic. Eftir að atvikið var skoðað í VAR mat Andre Marriner VAR-dómari það sem svo að brotið hafi átt sér stað rétt fyrir utan teig. Skot Mount úr aukaspyrnunni fór himinhátt yfir markið.

Í næstu sókn tvöfaldaði Leicester svo forystu sína. Albrighton átti þá flotta sendingu inn í teiginn sem var ætluð Vardy, hann féll við en boltinn barst til Maddison sem var einnig í frábæru hlaupi og kláraði örugglega framhjá Mendy, 2:0.

Þannig var staðan í hálfleik og varnarleikur Chelsea ekki svipur hjá sjón, en Leicester að sama skapi að leika feykivel.

Snemma í síðari hálfleik hefði James Justin getað farið langleiðina með að gulltryggja sigur Leicester. Á 50. mínútu fékk hann nefnilega frían skalla á fjærstönginni eftir góða fyrirgjöf Albrighton en skalli Justin framhjá markinu.

Albrighton skoraði svo sjálfur á 55. mínútu en mark hans var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Tveimur mínútum síðar slapp Youri Tielemans í gegn en Mendy varði skot hans vel með fætinum.

Eftir einkar fjörugan fyrsta klukkutíma leiksins róuðust hlutirnir umtalsvert. Chelsea kom að vísu boltanum í netið á 86. mínútu, en mark Timo Werner var dæmt af vegna rangstöðu. VAR skoðaði atvikið og virtist rangstaðan ansi tæp en Marriner VAR-dómari mat það sem svo að rétt hafi verið að dæma rangstöðu.

Leicester sigldi að lokum góðum 2:0 sigri í höfn. Sigurinn var fyllilega verðskuldaður enda vörðust leikmenn Leicester óaðfinnanlega og voru stórhættulegir í öllum sínum sóknaraðgerðum og voru skyndisóknir þeirra sérstaklega vel útfærðar.

Leikmenn Chelsea vörðust að sama skapi barnalega og máttu þakka fyrir að tapið hafi ekki verið stærra. Þá einkenndist sóknarleikur Chelsea af hugmyndaleysi og sá liðið í raun aldrei til sólar í leiknum.

Eins og áður segir þýðir sigurinn að Leicester er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig að 19 umferðum loknum. Chelsea er áfram í 8. sæti með 29 stig.

Wilfred Ndidi fagnar fyrsta marki leiksins ásamt liðsfélögum sínum.
Wilfred Ndidi fagnar fyrsta marki leiksins ásamt liðsfélögum sínum. AFP
Leicester 2:0 Chelsea opna loka
94. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með flottum sigri Leicester. Liðið er þar með komið í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar!
mbl.is