Williams leggur skóna á hilluna

Ashley Williams tók við deildabikarnum eftir sigur Swansea á Wembley …
Ashley Williams tók við deildabikarnum eftir sigur Swansea á Wembley árið 2013. AFP

Ashley Williams, fyrrverandi fyrirliði Swansea City og velska landsliðsins í knattspyrnu, hefur lagt fótboltaskóna á hilluna, 36 ára að aldri.

Williams, sem lék stöðu miðvarðar, var samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar nær allan hans tíma hjá Swansea en hann lék með liðinu í átta ár, vann deildabikarinn með liðinu árið 2013 og var tvisvar valinn í ellefu manna úrvalslið ensku úrvalsdeildarinnar.

Þeir léku síðan áfram saman með Everton en Williams fór þangað ári á undan Gylfa og lék með liðinu frá 2016 til 2019, en var reyndar lánaður til Stoke síðasta tímabilið. Hann lauk síðan ferlinum með Bristol City og hefur verið samningslaus síðan síðasta tímabili lauk.

Williams lék 86 landsleiki fyrir Wales og var lengi fyrirliði landsliðsins, m.a. í úrslitakeppni EM í Frakklandi árið 2016 þar sem velska liðið komst mjög óvænt í undanúrslit, Williams skoraði þar í óvæntum 3:1 sigri á Belgíu í átta liða úrslitunum.

Hann spilaði 655 deildaleiki á ferlinum, þar af 319 fyrir Swansea, en hann fylgdi liðinu úr C-deildinni upp í úrvalsdeildina á fyrstu þremur árum sínum með félaginu og þótti í framhaldi af því einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar.

mbl.is