Tvær vítaspyrnur í súginn

Kyle Bartley fagnar sigurmarki dagsins.
Kyle Bartley fagnar sigurmarki dagsins. AFP

West Brom vann afar mikilvægan og sömuleiðis skrautlegan 1:0-sigur á Brighton er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Með sigrinum fór West Brom upp í 17 stig og er nú átta stigum frá öruggu sæti þegar 12 umferðir eru eftir.

Kyle Bartley skoraði það sem reyndist svo vera sigurmark leiksins á 11. mínútu eftir undirbúning Conor Gallagher en gestirnir fengu svo sannarlega tækifærin til að knýja fram jafntefli. Pascal Gross klikkaði úr vítaspyrnu á 19. mínútu, þrumaði knettinum í þverslá og Danny Welbeck fór einnig illa með vítaspyrnu um stundarfjórðungi fyrir leikslok, skaut í stöngina.

Brighton er í 16. sæti með 26 stig og þarf að fara líta um öxl en liðið er fjórum stigum frá Fulham í fallsæti sem á leik til góða.

mbl.is