Áfall fyrir Leicester

Harvey Barnes var borinn af velli í gær.
Harvey Barnes var borinn af velli í gær. AFP

Harvey Barnes, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Leicester, verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Barnes þurfti að yfirgefa völlinn á börum í gær í leik Leicester og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í Leicester í gær. Leiknum lauk með 3:1-sigri Arsenal en Barnes fór af velli í upphafi síðari hálfleiks.

Sky Sports greinir frá því að Barnes hafði meiðst á hné og að leikmaðurinn þurfi að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna.

Þetta er mikið áfall fyrir Leicester sem er sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig og er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni.

Barnes hefur verið á meðal bestu leikmanna Leicester á tímabilinu og hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur fjögur í 22 byrjunarliðsleikjum í deildinni á tímabilinu.

mbl.is