Goðsögn hjá Liverpool fallin frá

Ian St. John lék í áratug með Liverpool.
Ian St. John lék í áratug með Liverpool. Ljósmynd/thisisanfield.com

Skoski knattspyrnumaðurinn Ian St. John er látinn, 82 ára að aldri, en hann var ein af helstu hetjum Liverpool á sjöunda áratug síðustu aldar og eitt af stóru nöfnunum í sögu félagsins.

St. John lék 425 leiki fyrir Liverpool á árunum 1961 til 1971 og skoraði 118 mörk. Félagið keypti hann af Motherwell í Skotlandi fyrir 37.500 pund árið 1961 og hann var þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Með St. John í broddi fylkingar vann Liverpool B-deildina árið 1962 og fylgdi því eftir með því að verða Englandsmeistari 1964 og 1966 og bikarmeistari 1965. 

St. John skoraði eitt eftirminnilegasta mark sitt á ferlinum þegar hann tryggði Liverpool 2:1 sigur á Leeds með sigurmarki í framlengingu á Wembley árið 1965.

Hann skoraði tvö mörk þegar Liverpool vann KR 6:1 á Anfield í fyrsta heimaleik Liverpool í Evrópukeppni haustið 1964 og hafði áður tekið þátt í fyrsta Evrópuleiknum á Íslandi þegar Liverpool vann fyrri leik liðanna á Laugardalsvellinum, 5:0.

St. John lék með Coventry og Tranmere tvö síðustu tímabil ferilsins og var næstu ár þar á eftir knattspyrnustjóri Motherwell og Portsmouth. Eftir það átti hann farsælan feril sem knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpi en hann og enski framherjinn Jimmy Greaves voru lengi saman með mjög vinsælan sjónvarpsþátt um fótbolta.

mbl.is