Klopp skilur ekki ákvörðunina

Jür­gen Klopp og Trent Alexander-Arnold
Jür­gen Klopp og Trent Alexander-Arnold AFP

Jür­gen Klopp, knatt­spyrn­u­stjóri Li­verpool, segir það óskiljanlegt að Trent Alexander-Arnold hafi ekki verið valinn í enska landsliðið sem spilaði þrjá leiki í undankeppni HM á dögunum.

Alexander-Arnold er 22 ára bakvörður og einn af lykilmönnum Liverpool, sem varð Englandsmeistari, á síðustu leiktíð. Gareth Soutghate, þjálfari landsliðsins, sagði að bakvörðurinn væri einfaldlega ekki búinn að vera jafn góður í vetur og undanfarin ár.

„Ef Trent Alexander-Arnold er ekki í hópnum þá hlýtur England að vera með ótrúlega góðan hóp,“ hefur BBC eftir þýska þjálfaranum. „Það kom mér á óvart að hann var ekki kallaður til, ég ber virðingu fyrir ákvörðuninni en ég skil hana ekki.“

Alexander-Arnold er einn þeirra sem hafa verið mikið gagnrýndir í liði Liverpool eftir erfiðan vetur. Meistararnir urðu enskir meistarar með 18 stiga forystu á síðustu leiktíð en eru nú í 7. sæti, 25 stigum á eftir toppliði Manchester City.

mbl.is