Cavani verður áfram á Old Trafford

Edinson Cavani fagnar eftir að hafa skorað fyrir Manchester United …
Edinson Cavani fagnar eftir að hafa skorað fyrir Manchester United gegn Aston Villa um helgina. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United tilkynnti nú síðdegis að félagið hefði skrifað undir nýjan samning við úrúgvæska framherjann Edinson Cavani.

Samningurinn er til eins árs og rennur út í júní 2022.

Cavani hefur skorað fimmtán mörk fyrir United á þessu keppnistímabili, níu þeirra í úrvalsdeildinni, en hann kom til félagsins frá París SG í byrjun október.

Hann er 34 ára gamall og lék með París SG í sjö ár þar sem hann skoraði 138 mörk í 200 deildaleikjum en spilaði áður með ítölsku félögunum Napoli og Palermo.

Þá hefur Cavani skorað 51 mark í 118 landsleikjum fyrir Úrúgvæ og hann er þriðji leikjahæsti og næstmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi.

mbl.is