Þeir bestu koma frá City

Rúben Dias átti frábært tímabil með Manchester City.
Rúben Dias átti frábært tímabil með Manchester City. AFP

Rúben Dias, miðvörður Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu, var útnefndur besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta tilkynnti enska úrvalsdeildin á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Dias, sem er einungis 24 ára gamall, gekk til liðs við City frá Benfica síðasta sumar fyrir rúmlega 60 milljónir punda.

Hann var lykilmaður í vörn City sem vann ensku úrvalsdeildina með talsverðum yfirburðum en City fékk 32 mörk á sig á tímabilinu.

Þá var Pep Guardiola, stjóri City, útnefndur stjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni en þetta er í þriðja sinn á fjórum árum sem hann er stjóri ársins.

Hann jafnar þar með stjóra á borð við Arséne Wenger og José Mourinho en sir Alex Ferguson vann verðlaunin ellefu sinnum.

Pep Guardiola hefur þrívegis verið útnefndur stjóri ársins í ensku …
Pep Guardiola hefur þrívegis verið útnefndur stjóri ársins í ensku úrvalsdeildinni. AFP
mbl.is