Portúgalskur markvörður til Úlfanna

José Sá í leik með portúgalska landsliðinu.
José Sá í leik með portúgalska landsliðinu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Wolves hefur gengið frá kaupum á portúgalska markverðinum José Sa. Leikmaðurinn kemur frá Grikklandsmeisturum Olympiacos og skrifar undir fimm ára samning.

Sá leysir landa sinn Rui Patrício af hólmi en hann gekk í raðir ítalska félagsins Roma á dögunum. Wolves greiðir tæpar sjö milljónir punda fyrir Sa.

Hann hefur leikið með Olympiacos frá árinu 2018 en var áður hjá Porto. Hann hélt 62 sinnum hreinu í 124 deildarleikjum með gríska liðinu. Ögmundur Kristinsson var varamarkvörður hans á síðasta tímabili.

mbl.is