Lingard á framtíð hjá Manchester United

Jesse Lingard
Jesse Lingard AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard á framtíð hjá Manchester United og er hluti af áformum stjórans fyrir komandi leiktíð. Lingard kom við sögu í æfingaleik United gegn Derby County í dag.

Lingard fékk lítið að spila hjá United á síðustu leiktíð og var því lánaður til West Ham í janúar þar sem hann sló í gegn. Hann skoraði níu mörk og lagði upp fimm til viðbótar í sextán leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Hann er hins vegar snúinn aftur til United og spilaði með liðinu í 2:1-sigri í dag. Eftir leik tjáði knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær blaðamönnum að Lingard væri í áformum sínum fyrir komandi tímabil. The Athletic hefur áður greint frá því að West Ham hafi mikinn áhuga á að kaupa Lingard til félagsins.

mbl.is