John Terry yfirgefur Aston Villa

John Terry, til hægri, ásamt Dean Smith, knattspyrnustjóra Aston Villa.
John Terry, til hægri, ásamt Dean Smith, knattspyrnustjóra Aston Villa. AFP

John Terry, fyrirliði Chelsea og landsliðsmaður Englands um langt árabil, tilkynnti í morgun að hann væri hættur störfum sem aðstoðarstjóri úrvalsdeildarliðsins Aston Villa.

Terry hefur starfað þar við hlið Deans Smith knattspyrnustjóra undanfarin þrjú ár en með þá við  stjórnvölinn tryggði liðið sér úrvalsdeildarsæti í umspili vorið 2019 og hefur nú leikið undanfarin tvö ár í deildinni. 

Terry sagði í yfirlýsingu að þar sem hann stefndi fullum fetum að því að verða sjálfur knattspyrnustjóri innan tíðar væri ekki rétt af sér að hefja nýtt tímabil með Aston Villa, vitandi það að ólíklegt væri að hann myndi ljúka því hjá félaginu.

„Ég ætla að byrja á því að verja tíma með fjölskyldunni og vonandi get ég í kjölfar þess heimsótt félög og knattspyrnustjóra hér og þar í Evrópu til að búa mig undir það markmið mitt að gerst stjóri sjálfur. Það hefur alltaf verið stefnan og ég tel að ég sé tilbúinn til að takast við þá áskorun,“ sagði Terry enn frekar um leið og hann þakkaði Dean Smith  sérstaklega fyrir samstarfið ásamt öllum hjá Aston Villa.

John Terry var afar sigursæll sem fyrirliði Chelsea.
John Terry var afar sigursæll sem fyrirliði Chelsea. AFP

John Terry er fertugur og var í 22 ár í röðum Chelsea eftir að hafa komið fimmtán ára gamall til félagsins frá West Ham. Hann lék 492 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni og samtals 717 mótsleiki, varð fimm sinnum enskur meistari, fjórum sinnum bikarmeistari og vann bæði Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina með Chelsea. Terry lék 78 landsleiki fyrir Englands hönd á árunum 2003 til 2012.

Hann kom til Aston Villa frá Chelsea árið 2017 og spilaði eitt tímabil með liðinu áður en hann tók við starfi aðstoðarstjóra.

mbl.is