Ronaldo: Ég er ekki kominn hingað í frí

Á opinberri heimasíðu enska knattspyrnufélagsins Manchester United ræddi nýjasti liðsmaður þess, Cristiano Ronaldo, málin við fyrrverandi liðsfélaga sinn Wes Brown.

Þar ræddu þeir um endurkomuna, en Ronaldo er mættur aftur í rauðu treyjuna 12 árum eftir að hann yfirgaf félagið árið 2009. Portúgalski snillingurinn segist enn uppfullur af metnaði þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall og eigi nóg inni.

„Það er ástæðan fyrir því að ég er hér. Ég er ekki kominn hingað í frí. Síðast þegar ég var hérna var allt með besta móti og við unnum marga mikilvæga leiki þegar ég klæddist treyjunni fyrir mörgum árum síðan.

Ég er mættur hingað til þess að vinna leiki. Ég er fær um það og liðsfélagar mínir líka. Ég er reiðubúinn að láta að mér kveða og tel að þetta sé gott tækifæri fyrir mig sjálfan, stuðningsmennina og félagið að taka skrefið upp,“ sagði Ronaldo við Brown.

Viðtalið, sem er birt með góðfúslegu leyfi ManUtd.com fyrir tilstilli Símans Sports, má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is