„Gæti ekki verið meira sama um hvað önnur félög gera“

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska knattspyrnufélagsins Liverpool, ver litla eyðslu félagsins undanfarin ár og segir að honum komi það ekkert við hvað önnur félög aðhafist á félagaskiptamarkaðnum.

Liverpool keypti miðvörðinn Ibrahima Konaté í upphafi sumars en lét þar við sitja í styrkingum. Auk þess var nokku fjöldi leikmanna seldir, þar á meðal Xherdan Shaqiri, sem fór til Lyon í Frakklandi.

Á meðan eyddu keppinautar Liverpool í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar gífurlegum fjárhæðum í félagaskiptaglugganum í sumar.

„Mér gæti satt að segja ekki verið meira sama um hvað önnur félög eru að gera. Ég vissi að þetta yrði svona þegar ég kom hingað. Við getum ekki keypt leikmenn bara til þess að vera sirkús!“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

Hann vísaði þar til þess að til þess að mögulegt sé fyrir hann að kaupa gæðaleikmenn þurfi fyrst að selja leikmann eða leikmenn, enda er nettó eyðsla Liverpool undanfarin ár afar lág samanborið við mörg önnur félög ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is