Ekki á leið í samningaviðræður við United

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Bróðir Paul Pogba segir að hann hafi ekki tekið ákvörðun um hvort hann verði áfram í herbúðum enska knattspyrnufélagsins Manchester United að loknu tímabilinu.

Fréttir bárust af því í gær að Pogba hygðist setjast að samningaborðinu hjá Rauðu djöflunum eftir að hafa áður verið orðaður við brottför næstkomandi sumar, þegar núverandi samningur hans rennur út.

Ástæðan fyrir því að Pogba hefði hug á að ræða nýjan samning var sögð sú að honum litist vel á tímabilið sem er nýhafið, ekki síst með tilkomu nokkurra ógnarsterkra leikmanna í félagaskiptaglugganum í sumar.

Mathias, eldri bróðir Paul, segir bróður sinn þó enga ákvörðun hafa tekið ennþá. „Paul á enn eftir að taka ákvörðun um hvort hann hyggist halda kyrru fyrir hjá Manchester United eða fara frá félaginu næsta sumar.

Þetta er hans ákvörðun. Akkúrat núna líður honum vel hjá Man Utd, sérstaklega á þessu tímabili. Við sjáum hvað setur. Við munum sjá til þegar sá tímapunktur rennur upp til að það þarf að taka ákvörðun,“ sagði Mathias í spænska sjónvarpsþættinum El Chiringuito.

Hann hefur áður hvatt bróður sinn til þess að semja við Barcelona og talaði einnig á þá leið í sjónvarpsþættinum þegar hann var spurður út í möguleg félagaskipti bróður hans þangað:

„Ég veit ekki neitt en ég er með ykkur. Ég myndi semja strax. Vonandi semur hann við Barca.“

mbl.is