Missir af næstu leikjum Liverpool

Thiago í leik með Liverpool.
Thiago í leik með Liverpool. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Thiago Alcantara verður ekki með Liverpool í næstu leikjum eftir að hann haltraði af velli í leik liðsins gegn Crystal Palace á laugardaginn.

Pep Lijnders, aðstoðarstjóri Liverpool, sagði í dag að ekki lægi enn fyrir hve lengi Thiago yrði frá keppni en um meiðsli í kálfa væri að ræða. Hann yrði allavega ekki með gegn Norwich í deildabikarnum annað kvöld eða gegn Brentford í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Thiago fór af velli á 62. mínútu í leiknum.

Trent Alexander-Arnold missti af leiknum við Palace vegna veikinda og verður heldur ekki með gegn Norwich á morgun. Roberto Firmino hefur hinsvegar hafið æfingar á ný eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum Liverpool vegna tognunar í læri.

mbl.is