Vonaðist til að Raphinha kæmi til Liverpool

Fabinho skorar fyrir Liverpool gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni …
Fabinho skorar fyrir Liverpool gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði. Raphinha (nr. 10) kemur engum vörnum við á marklínunni. AFP

Fabinho, miðjumaður Liverpool og brasilíska landsliðsins, segist hafa vonast til þess að Raphinha, vængmaður Leeds United og samherji Fabinho í landsliðinu, gengi til liðs við Liverpool í sumar.

Raphinha hefur spilað afar vel fyrir Leeds frá því hann kom frá franska félaginu Rennes fyrir rétt rúmu ári.

Fabinho hefur ekki farið varhluta af því og hefði gjarna viljað fá Raphinha í herbúðir Liverpool. Liverpool er sagt hafa fylgst lengi með honum en bauð þó ekki í hann í sumar.

„Allt frá því hann kom í ensku úrvalsdeildina hefur hann sýnt mjög góðar frammistöður og tilþrif.

Hvað Liverpool varðar var ég að vonast til þess að það myndi gerast en á endanum varð hann um kyrrt hjá Leeds,“ sagði Fabinho við brasilíska dagblaðið UOL í vikunni.

„Hann er besti leikmaður Leeds í dag. Alltaf þegar við spilum gegn þeim vitum við að hann er sá leikmaður sem getur skapað hvað mesta hættu,“ bætti hann við.

Raphinha spilaði sína fyrstu tvo landsleiki fyrir Brasilíu í yfirstandandi landsleikjaglugga og gæti bætt við þeim þriðja í nótt þegar liðið mætir Úrúgvæ í undankeppni HM 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert