Hafa rætt við Conte

Antonio Conte er orðaður við stjórastöðuna hjá United.
Antonio Conte er orðaður við stjórastöðuna hjá United. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa rætt við Antonio Conte um að taka við stjórnartaumunum hjá félaginu. Það er ítalski fjölmiðlamaðurinn Gianluca Di Marzio sem greinir frá þessu.

Ole Gunnar Solskjær er stjóri United eins og sakir standa en hann þykir afar valtur í sessi eftir 0:5-tap liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn síðasta.

United er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og eru eigendur United að missa þolinmæðina gagnvart Norðmanninum.

Conte hefur verið án starfs síðan hann hætti óvænt með Inter Mílanó í sumar eftir að hafa gert liðið að Ítalíumeisturum í fyrsta sinn í ellefu ár.

Ítalski knattspyrnustjórinn þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea frá 2016 til 2018 en hann gerði liðið að Englandsmeisturum tímabilið 2016-17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert