Á förum frá Liverpool í janúar?

Nathaniel Phillips hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum …
Nathaniel Phillips hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með Liverpool á tímabilinu. AFP

Nathaniel Phillips gæti yfirgefið enska knattspyrnufélagið Liverpool þegar janúarglugginn verður opnaður. Það er Telegraph sem greinir frá þessu.

Phillips, sem er 24 ára gamall, hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með Liverpool á tímabilinu og í báðum leikjum kom hann inn á sem varamaður.

Hann hefur ekkert leikið með liðinu í ensku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíðar en hann er á eftir þeim Virgil van Dijk, Joel Matip, Ibrahima Konáte og Joe Gomez í goggunarröðinni á Anfield.

Telegraph greinir frá því að mörg lið hafi áhuga á Phillips en þar ber hæst að nefna Newcastle og West Ham. Þá hefur hann einnig verið orðaður við Burnley, Brighton og Southampton.

Phillips var í lykilhlutverki með Liverpool á síðustu leiktíð og lék 17 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði eitt mark.

Liverpool er sagt tilbúið að selja leikmanninn fyrir 15 milljónir punda en hann er samningsbundinn félaginu til sumarsins 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert