Rangnick reyndi að halda Carrick

Ralf Rangnick.
Ralf Rangnick. AFP

Nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, Ralf Rangnick, segist hafa reynt að halda Michael Carrick hjá félaginu en Carrick hljóp í skarðið eftir að Ole Gunnar Solskjær var sagt upp störfum. 

Rangnick greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag en Carrick ákvað að yfirgefa félagið og taka sér frí. Funduðu þeir undir fjögur augu en Rangnick tókst ekki að sannfæra Carrick um að vera í þjálfarateyminu. Rangnick sagðist á heildina litið vera á nægður með þjálfarateymið en sagðist reikna með að ná í tvo til þrjá starfsmenn. 

Rangnick sagði ennfremur frá því að hann hafi spjallað við Solskjær í einn og hálfan klukkutíma til að fá innsýn í ýmislegt varðandi leikmannahópinn og félagið. Sagði hann Solskjær hafa sýnt örlæti með þessu. 

Ralf Rangnick sagði að þegar Manchester United bjóði sér starf þá sé einfaldlega ekki hægt að segja nei. Í febrúar hafnaði hann tilboði frá Chelsea. Sagði hann vera talsverðan mun á þessum tveimur atvinnutilboðum. Chelsea hafi einungis boðið sér að vera knattspyrnustjóri til bráðabirgða eða í fjóra mánuði. Hjá United verði hann alla vega knattspyrnustjóri í sex og hálfan mánuð og þá taki við yfirmannsstaða hjá félaginu í tvö ár. 

mbl.is