Arsenal fær samherja Arnórs í sumar

Matt Turner er markvörður New England Revolution og bandaríska landsliðsins …
Matt Turner er markvörður New England Revolution og bandaríska landsliðsins en nú er hann á leið til Arsenal. AFP

Matt Turner, landsliðsmarkvörður Bandaríkjanna, gengur til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal í sumar.

Þetta staðfesti Gregg Berhalter, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, eftir sigur á El Salvador í nótt, 1:0, í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu en þar hélt Turner marki sínu hreinu.

Sky Sports segir að kaupverðið sé 4,5 milljónir punda og hann muni skrifa undir fjögurra ára samning sem gildi frá 1. júlí.

Turner er markvörður New England Revolution, sem var sterkasta lið Bandaríkjanna á árinu 2021, og var þar samherji Arnórs Ingva Traustasonar.

Þar með stefnir allt í að Þjóðverjinn Bernd Leno yfirgefi Arsenal í sumar en þá mun hann eiga eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Aaron Ramsdale hefur tekið stöðu aðalmarkvarðar liðsins af Leno. 

Turner er 27 ára gamall og hefur leikið með New England í sex ár. Hann lék sinn fjórtánda landsleik í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert