Við mætum besta liði heims

Steven Gerrard tók við liði Aston Villa seint á síðasta …
Steven Gerrard tók við liði Aston Villa seint á síðasta ári. AFP

Steven Gerrard knattspyrnustjóri Aston Villa segir að uppeldisfélagið sitt Liverpool sem hann lék með í sautján ár sé besta lið heims um þessar mundir.

Aston Villa tekur á móti Liverpool annað kvöld í leik sem skiptir Gerrard og hans menn ekki miklu máli en Liverpool verður að  vinna til að eiga möguleika á að slást áfram við Manchester City um meistaratitilinn í lokaumferðum úrvalsdeildarinnar.

„Við mætum heimsklassaliði, sennilega besta liði heims á þessum tímapunkti, svo við vitum allt um verkefnið sem bíður okkar," sagði Gerrard á fréttamannafundi í dag en hann varð m.a. Evrópumeistari með Liverpool á sínum tíma.

„Ég er margoft skýrt frá því hve mikla virðingu ég ber fyrir Jürgen Klopp og þjálfarateymi hans og við vitum allt um þá, en þetta er spennandi og ég hlakka mikið til leiksins. Það eru þessir stóru leikir sem fótboltinn snýst um," sagði Gerrard.

„Við erum í þeirri stöðu þegar fjórir leikir eru eftir að geta tryggt okkur eitt af tíu efestu sætunum, sem yrði mjög jákvætt og það er langt síðan félagið hefur náð því," sagði Gerrard ennfremur, en Villa er í ellefta sætinu sem stendur eftir að hafa unnið tvo síðustu leiki sína í deildinni.

mbl.is