Lampard varar við vanmati

Frank Lampard.
Frank Lampard. AFP/Ben Stansall

Everton heimsækir Watford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Everton er í fallbaráttu á meðan Watford er fallið.

Everton er stigi fyrir ofan fallsæti en margt leit út fyrir að þetta fornfræga lið væri á leið niður um deild fyrir nokkrum vikum. Síðan þá hefur gengið skánað og liðið er komið úr fallsæti.

Frank Lampard, stjóri liðsins segir að það sé ekki í boði að vanmeta Watford-liðið þrátt fyrir að það sé fallið. 

„Mín einu skilaboð til leikmanna eru að vinna þennan leik. Að vanmeta Watford er ekki í boði þrátt fyrir að liðið sé fallið. Allir leikir í deildinni eru erfiðir, sérstaklega á útivelli. Um leið og við förum að hugsa að við séum hólpnir lendum við í vandræðum.“

Everton er í 16. sæti deildarinnar með 35 stig eftir 34 leiki. Burnley og Leeds eru með stigi minna en hafa leikið 35 leiki.

mbl.is