Staðfestir að Fabinho verði klár gegn Real

Fabinho fagnar marki sínu gegn Villarreal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.
Fabinho fagnar marki sínu gegn Villarreal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. AFP/Paul Ellis

Jürgen Klopp, stjóri enska knattspyrnuliðsins staðfesti á blaðamannafundi í hádeginu að miðjumaður liðsins, Fabinho, verði klár í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid.

Leikurinn fer fram þann 28. maí en Brasilíumaðurinn Fabinho fór meiddur af velli í leik Liverpool gegn Aston Villa á dögunum. Óttast var að hann gæti misst af öllum þeim fjórum leikjum sem eru eftir af tímabilinu en svo er ekki.

Liverpool leikur gegn Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins á laugardaginn. Klopp staðfesti einnig að Fabinho verði ekki með í þeim leik en talaði vel um hugarfar leikmanna eins og Curtis Jones, Alex Oxlade-Chamberlain og Harvey Elliott sem munu mögulega fá stærra hlutverk undir lok tímabils.

mbl.is