Leeds vann í London og sendi Burnley niður

Leikmenn Leeds fagna ásamt stuðningsmönnum eftir að hafa skorað gegn …
Leikmenn Leeds fagna ásamt stuðningsmönnum eftir að hafa skorað gegn Brentford. AFP

Leeds hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag með því að sigra Brentford 2:1 á útivelli í lokaumferðinni á meðan Burnley tapaði 1:2 á heimavelli gegn Newcastle.

Liðin voru jöfn með 35 stig en markatala Burnley var mun betri þannig að Leeds þurfti að ná betri úrslitum í dag.

Newcastle komst yfir gegn Burnley á Turf Moor á 20. mínútu þegar Callum Wilson skoraði úr vítaspyrnu, 0:1. Á sama tíma skoraði Leeds gegn Brentford en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Leeds náði forystu gegn Brentford í London á 56. mínútu þegar Raphinha skoraði úr vítaspyrnu, 0:1.

Staða Burnley versnaði enn á 60. mínútu þegar Newcastle bætti við marki, 0:2. Callum Wilson var aftur á ferðinni.

Maxwel Cornet gaf Burnley von á ný á 69. mínútu þegar hann minnkaði muninn í 1:2.

Sergi Canos jafnaði fyrir Brentford gegn Leeds, 1:1, á 77. mínútu og þar með var allt í járnum á ný. Leeds með 36 stig gegn 35 hjá Burnley. 

Leikmenn Brentford fengu hinsvegar rautt spjald og vegna meiðsla voru þeir aðeins með níu menn gegn ellefu hjá Leeds á lokakaflanum.

Jack Harrison skoraði fyrir Leeds í uppbótartímanum og gulltryggði liðinu áframhaldandi sæti í deildinni.

Leeds fékk því 38 stig í sautjánda sæti deildarinnar en Burnley fékk 35 stig og fellur ásamt Watford og Norwich. Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Burnley vegna meiðsla.

Stuðningsmenn Leeds fagna fréttum af því að Burnley sé að …
Stuðningsmenn Leeds fagna fréttum af því að Burnley sé að tapa gegn Newcastle. AFP
mbl.is