Englandsmeistararnir kærðir vegna óspekta áhorfenda

Úr leik Manchester City á þessu tímabili.
Úr leik Manchester City á þessu tímabili. AFP/Oli Scarff

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Englandsmeistara Manchester City fyrir að hafa ekki stjórn á stuðningsmönnum sínum í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili þegar liðið tryggði sér titilinn með ótrúlegri endurkomu gegn Aston Villa.

Þúsundir stuðningsmanna City hlupu inn á Etihad-völlinn til þess að fagna Englandsmeistaratitlinum en hegðun sumra þeirra var ekki til fyrirmyndar þar sem var til að mynda ráðist á Robin Olsen, markvörð Villa, og þverslá annars marksins brotin.

„Eftir lokaflaut þessa leiks sá Manchester City ekki til þess að áhorfendur þess, og allar manneskjur sem kváðust stuðningsmenn liðsins eða fylgjendur, hegðuðu sér á ásættanlegan hátt og sýndu af sér ógnandi og/eða ofbeldisfulla hegðun á meðan þeir hlupu inn á völlinn,“ sagði í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu.

Í maí síðastliðnum kærði lögreglan í Manchester tvo aðila í tengslum við hlaupin inn á völlinn og er enn að rannsaka fjölda sakamála, þar á meðal í tengslum við eignaspjöll á vellinum.

Man. City hefur til 25. ágúst til þess að bregðast við kærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert