Úlfarnir kræktu í Nunes fyrir metfé

Matheus Nunes í leik með Sporting á dögunum.
Matheus Nunes í leik með Sporting á dögunum. AFP/Patricia de Melo Moreira

Wolverhampton Wanderers hefur fest kaup á Matheus Nunes, eftirsóttum portúgölskum miðjumanni sem kemur frá Sporting frá Lissabon. Greiða Úlfarnir 38 milljónir punda fyrir Nunes, sem er félagsmet hjá enska úrvalsdeildarliðinu.

Nunes, sem hafði verið orðaður við fjölda sterkra liða í sumar skrifaði undir fimm ára samning.

Hann er fæddur í Brasilíu en flutti 12 ára gamall til Portúgals. Móðir Nunes er frá Brasilíu og faðir frá Portúgal.

Því er hinn 23 ára gamli fjölhæfi miðjumaður með tvöfalt ríkisfang en valdi þó á síðasta ári að leika fyrir landslið Portúgals og á nú að baki átta A-landsleiki fyrir hönd þjóðarinnar.

Nunes er tólfti Portúgalinn sem er nú á mála hjá Úlfunum auk þess sem knattspyrnustjóri liðsins, Bruno Lage, er samlandi þeirra.

mbl.is