Tók leikmann Liverpool úr hópnum

Trent Alexander-Arnold er ekki í hópnum hjá enska liðinu.
Trent Alexander-Arnold er ekki í hópnum hjá enska liðinu. AFP/Paul Ellis

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari karlaliðs Englands í fótbolta, hefur opinberað 23 manna hóp fyrir leik liðsins gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni á Wembley í kvöld.

Leikurinn skiptir litlu máli fyrir enska liðið, þar sem það er fallið úr A-deildinni eftir slæm úrslit að undanförnu.

Southgate gerir eina breytingu frá hópnum sem tapaði fyrir Ítalíu í síðustu viku en Ivan Toney, framherji Brentford, kemur inn í liðið í staðinn fyrir Trent Alexander-Arnold, bakvörð Liverpool.

Enska liðið er án sigurs í síðustu fimm leikjum og hefur ekki skorað mark í þremur þeirra. Þá hefur liðið spilað 495 mínútur án þess að skora í opnum leik.

Fyrir vikið er sætið hjá Southgate orðið heitt, en hann hefur náð góðum árangri með enska liðið og komist í undanúrslit á HM 2018 og í úrslit á EM á síðasta ári.

mbl.is