Scholes skýtur á vængmenn United

Paul Scholes í leik með Manchester United.
Paul Scholes í leik með Manchester United. SANG TAN

Paul Scholes, fyrrverandi knattspyrnumaður, skaut föstum skotum á vængmenn Manchester United, þá Antony og Jadon Sancho, á Instagramaðgangi sínum í morgun.

Man. United, sem Scholes lék sjálfur með allan sinn knattspyrnuferil, steinlá fyrir nágrönnum sínum í Manchester City, 3:6, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Man. City átti ekki í miklum erfiðleikum með að spila sig í gegnum vörn Man. United. Varð Scholes af því tilefni hugsað til gömlu góðu tímanna þar sem kantmenn voru duglegir við að hjálpa bakvörðum við varnarleik.

„Man einhver eftir því þegar vængmenn hjálpuðu bakvörðum sínum?“ spurði Scholes og birti um leið mynd af David Beckham og Ryan Giggs, sem léku sem kantmenn Man. United um langt árabil, í Instagram „story“ hjá sér.

mbl.is