Tilþrifin: Alisson lagði upp sigurmark Salah

Mohamed Salah reyndist hetja Liverpool þegar liðið vann 1:0-sigur á Englandsmeisturum Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.

Markið skoraði hann tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Alisson, markvörður Liverpool, sparkaði langt fram, Salah sneri laglega á Joao Cancelo og kláraði svo snyrtilega framhjá Ederson í marki Man. City.

Áður hafði Phil Foden komið gestunum í forystu en markið var réttilega dæmt af eftir athugun í VAR þar sem Erling Haaland braut á Fabinho í aðdragandanum.

Sigurmark Salah, markið sem var dæmt af og helstu færin í leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is