Verður áfram í herbúðum Chelsea

Thiago Silva er að skrifa undir nýjan samning við Chelsea.
Thiago Silva er að skrifa undir nýjan samning við Chelsea. AFP/Ben Stansall

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Thiago Silva verður áfram í herbúðum enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea á næstu leiktíð.

Það er The Guardian sem greinir frá þessu en Silva, sem er 38 ára gamall, gekk til liðs við enska félagið frá París SG í Frakklandi sumarið 2020.

Samningur miðvarðarins á Stamford Bridge rennur út í sumar en The Guardian greinir frá því að Silva sé nálægt því að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Alls á hann að baki 105 leiki með Chelsea í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað fimm mörk og lagt upp önnur fimm til viðbótar. Þá á hann að baki 113 A-landsleiki fyrir Brasilíu.

Hann varð Evrópumeistari með Chelsea árið 2021 og heimsmeistari félagsliða með félaginu sama ár.

mbl.is